Episodes
Þótt við hættum að brenna grunað galdrafólk á báli, var ekki þar með sagt að við hættum að segja af þeim sögur eða finnast galdrar spennandi. Síður en svo! Á 18. öld náðu sögusagnir af galdrafólki hámarki og þar af er sennilega frægastur Loftur nokkur, kenndur við galdra. Við heyrum söguna af honum og hvort einhver fótur hafi verið fyrir henni yfirleitt.
Published 12/01/22
Við höldum áfram að segja sögur af fólki í Árnessýslu í upphafi 19. aldar. Þá riðu ekki kannski hetjur um héruð, skulum frekar kalla þá hraustmenni. Þar ber hæst heljarmennið Sigurð Gottsvinsson sem hefði vissulega getað nýtt hina miklu krafta sína til betri hluta en hann gerði. Ránið á Kambi var á sínum tíma stærsta sakamál sem komið hafði upp á Íslandi og í það flæktist margt fólk, margir Jónar og Þuríður formaður!
Published 11/23/22
Stígið um borð í sjálfstæðan fyrrihluta þáttar um mannlífið í Árnessýslu í byrjun 19. aldar. Hér stýrir Þuríður Einarsdóttir bátnum okkar og annarra á Höggstokkseyrarbakka, þegar það þótti ekkert tiltökumál þótt konur væru sjómenn. Þuríður var merkiskona sem kemur einnig við sögu í næsta þætti og því mikilvægt að kynnast henni áður en lengra er haldið.
Published 11/16/22
Við förum út á hálan jarðfræðiísinn hjá Eyjafjallajökli og Grímsvötnum í dag. Hamfarir eru ekki bara lengst í sögulegri fortíð okkar heldur eigum við fjöldan allan af virkum eldstöðvum sem minna sífellt á sig og halda okkur á tánum. Sigrún er óvenju málhölt og treg í þessum þætti enda er hún ekki með nein próf á tölur og stærðir nema um sé að ræða prjónaskap.
Published 11/10/22
Við eigum svo mörg skemmtileg og falleg orð í íslensku, eins og þessi tvö; tilberi og margýgja! Því miður vill svo til að þau lýsa mjög ógeðfelldum fyrirbærum úr íslenskum þjóðsögum, sem er einmitt það sem gerir þau stórkosleg. Eða allavega í okkar augum.
Published 11/03/22
Í upphafi 6. seríu förum við í fjársjóðsleit! Því fyrir 400 árum strandaði glæsilegt hollenskt skip á Suðurlandi sem hvarf svo bara í sandinn og enginn lagði á minnið hvar það sást síðast. Um það hafa síðan spunnist sögur og vonir og þrár ævintýra og athafnamanna um að finna óskemmt skipið í sandinum, fullt af gersemum.
Published 10/27/22
Til að sanna að við séum enn á lífi gerðum við þátt um ferðalög, lífið, baska og ekkert! Ég fann 20 ára gamalt háskólaverkefni sem ég varð að deila með Önnu og öðrum sem vilja heyra um samskipti Íslendinga við Baska. Haturspóstar vegna "á Bolungarvík" vinsamlegast afþakkaðir. Við vitum þetta en virðumst samt sem áður eiga erfitt með að gera þetta rétt...
Published 07/15/22
Fimmtugasti Myrki þátturinn fjallar um Guðríði "bad ass" Símonardóttur sem var rænt ásamt tæplega 400 Íslendingum af sjóræningjum árið 1627 og flutt í þrælahald í Barbaríinu í Algeirsborg. Af þessu heyrðum við í tveimur þáttunum í 4. seríu. En þar endar saga Guðríðar alls ekki því hún átti eftir að komast aftur til Íslands löngu síðar og hneyksla landann. Glöggir áheyrendur geta heyrt al íslenskt haglél bylja á upptökustúdíóinu. Fullkomin leið til að þakka fyrir veturinn og bjóða vorið...
Published 05/12/22
Það er heldur betur flissþáttur í dag! Annað er varla hægt þegar kafað er ofan í kukl og kerlingabækur á Íslandi á 18. og 19.öld. Ég leyfi mér að efast um andlega og líkamlega heilsu landsmanna í ljós þeirra fráleitu hugmynda um lækningamátt hinna ýmsu saurtegunda og dýrainnyfla. Við skoðum allskonar hugmyndir um "lækningar" samkvæmt Jónasi frá Hrafnagili, hvort sem þær voru mikið eða lítið stundaðar, því það vitum við því miður alls ekki.
Published 05/05/22
Stundum er gestsaugað glöggt og í gegnum tíðina höfum við bæði elskað og hatað að lesa lýsingar erlendra gesta á landi og þjóð. Fátt gleður okkur og móðgar okkur jafn mikið og það sem sá mikilvægi hópur hefur að segja um okkur. Við skoðum nokkra af breskum fyrirmönnum sem komu hingað á 18. og 19. öld og höfðu skoðanir á lifnaðarháttum okkar og hvað það er sem helst hefur nýst nútíma sagnfræðingum af því efni sem þeir skildu eftir sig.
Published 04/29/22
Málið er stórt í dag! Fáir menn hafa gnægt svo yfir þjóðlífinu á Íslandi eins og Einar Benediktsson var um aldamótin 1900. Hann var allstaðar og hafði skoðanir á öllu. Aflaði sér mikilla vina og mikilla óvina. Enda var hann stórbrotinn hæfileika maður á mörgum sviðum. En stórbrotið fólk er líka brothætt og það var Einar líka. Við skoðum hið svokallað Sólborgarmál í Þistilfirði sem hafði mikil áhrif á sálarheill Einars og sögurnar sem fylgdu þeim báðum og þjóðinni með draugasögum úr Höfða.
Published 04/22/22
Enn er ég rám sem regindjúp en það stoppar okkur ekki í að segja ykkur frá lífi og örlögum óvenjulegrar konu sem kölluð var Stutta Sigga. Uppeldi hennar var nöturlegt og hluta af ævi sinni tilheyrði hún hinu alræmda flökkufólki sem var þjóðflokkur sem Íslendingar óttuðust meira en heimsendi og gera kannski enn í dag. Við lesum söguna upp úr Grímu hinni nýju og heyrum mörg ljómandi falleg íslensk orð í kaupbæti.
Published 04/14/22
Þátturinn okkar í dag er tileinkaður minningu helstu klappstýru þessara þátta og vini okkar Önnu, honum Árna pípara sem lést fyrir stuttu. Til að við hefðum einhverja burði til að halda uppteknum hætti ákvað ég að taka fyrir létt efni, en það eru þjóðsögur af Sæmundi fróða sem uppi var á 11. og 12. öld. Helst segir frá viðureignum hans við kölska sjálfan sem ekki virtist nú vera skarpasta ljósaperan í ljósabekknum, blessaður.
Published 04/07/22
Löng og flókin ástarsaga beinagrinda gæti verið ágætis lýsing á sögu Solveigar og séra Odds á hinni skelfilegu 18.öld. Þetta var harmsaga sem ásótti sveitir norðanlands í marga áratugi, jafnvel árhundruð. Hversu margar beinagrindur er hægt að finna óvænt í kirkjugarði og hver á hvaða bein?
Published 03/18/22
Já, Anna mín, það þarf allavega að vera morð öðru hverju í ógeðisþáttum eins og okkar. Við bregðum okkur í sakamála leik vegna tveggja morðmála. Þau eiga ekkert sameiginlegt nema það að hafa bæði verið framin það herrans ár 1704. En við getum lofað þungaðri konu, framhjáhaldi, líkskoðunum, dularfullri hempu og það sem allir elska; manni sem klikkar á tylftareið! Ekki reið, nei; eið!!
Published 03/10/22
Mig langaði svo að finna eitthvað áhugavert og skemmtilegt að segja ykkur Önnu frá 15. öldinni, sem er kennd við Englendinga og er yfirskyggð af því leiðinlegasta sem til er í allri sagnfræði; Verzlunarsögu!! En ég fann rustamenni og dólg þar sem varð að þjóðsagnapersónu þótt hann hafi sannarlega verið til í alvöru. Torfi heitir maðurinn, kenndur við Klofa! Hann reið um héruð Sunnanlands og var rosa mikið aðal kallinn.
Published 03/04/22
Síðasti þáttur í fjórðu þáttaröðinni okkar! Við reynum að vera jólalegar og fundum kuldalega stemningu í frostavetrinum 1918. Skoðum aðeins þennan alræmda vetur sem í rauninni var aðeins fáránlega kaldur janúarmánuður þar sem hvert kuldametið á fætur öðru var slegið. Eins komumst við að því til hvers vesti eru.
Published 12/24/21
Það er frjálslegt spjall um þjóðsögu/morðmál frá Austurlandi í dag. Saga sem ég heyrði nýlega vegna þess að hinn harði vetur sem brast á eftir aftöku Valtýs var kallaður Valtýsvetur. Sitt sýnist hverjum um sannleiksgildi þjóðsögunnar og Sigrún hefur, ótrúlegt en satt, skoðanir á því hver hafi myrt Símon sendisvein.
Published 12/17/21
Eftir að Grindvíkingum, Austfirðingum og Vestmannaeyingum hafði verið smalað eins og búfénaði ofan í maga austurlensku víkingaskipanna, tók við hryllilegt ferðalag í hið svokallaða Barbarí; Sjálft Tyrkjaveldið. Örlög hinna 350 Íslendinga og Dana sem rænt var góðviðris sumarið 1627 urðu æði misjöfn.
Published 12/10/21
Einn áhugaverðasti og magnaðasti viðburður Íslandssögunnar (ég veit að ég segi þetta oft...) er klárlega Tyrkjaránið! Það sem færri kannski vita er að áður en "Tyrkirnir" fóru til Vestmannaeyja létu þeir greipar sópa annarsstaðar á Íslandi. Þar leynast margar æsilegar sögur og óhugnaður. Sigrún talar svo mikið, er með óvenju mikið málstol, aðdraganda, og sögulegan bakgrunn, að við náum ekki einu sinni að komast til Vestmannaeyja í þessum þætti! Að ógleymdum tæknilegu örðugleikunum!
Published 12/02/21
Er ekki kominn tími á einn laufléttan fliss þátt um sígilda íslenska drauga eftir allt dramað undanfarið? Við skoðum hvernig hin íslenska draugasaga varð til og þróaðist með tímanum. Heyrum af Höfðabrekku-Jóku, Írafells-Móra og að sjálfsögðu Djáknanum af Myrká.
Published 11/25/21
Hér kemur þá hinn helmingurinn af Skaftáreldasögunni; sjálf Móðuharðindin, sem eru merkilegt nokk, ekki harðindi einnar slæmrar móður eins og einhverjir hafa haldið! Þetta er sá hörmungartími sem felldi sennilega hvað mest af íslensku þjóðinni og ekki síst af búfénaði landsins og herti genamengi íslenskra húsdýra til muna. Kafið í móðuna með okkur!
Published 11/18/21
Það er komið að máli málanna! Skaftáreldarnir, gosið í Lakagígum 1783, eitt stærsta hraungos mannkynssögunnar, hvorki meira né minna! Fylgjumst með frásögn eldklerksins Jóns Steingrímssonar af því þegar iður jarðar opnast í "eldsveitunum" í Skaftafellssýslum. Ef einhvern tíman var tími til að trúa á heimsendi, þá var þetta líklega tíminn.
Published 11/12/21
Létt og skemmtilegt spjall um íslenskar aftökur fyrr og síðar! Íslendingar náðu að taka um 250 manns af lífi á snörpu aftökutímabili, nokkuð sem hefur verið skoðað í áhugaverður verkefni sem heitir Dysjar hinna dæmdu. Kafið í drykkingarhylinn og klifrið upp í gálgann með okkur!
Published 11/05/21