Episodes
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands kemur í heimsókn í jólaþáttinn sem er jafnframt 50. þáttur hlaðvarpsins og hefur Gunnlaugur mandarínur á borðum af því tilefni. Þar sem þau Ármann eru systkini er rætt um dálæti formæðra þeirra á Bolla og Ítalíuferð Katrínar með Njálu í farangrinum. Meðal annars sem ber á góma er hvort tekist sé á um Íslendingasögurnar á ríkisstjórnarfundum, dálæti Katrínar á bókaflokknum Landið þitt Ísland, rútuferðir íslenskunema á öldinni sem leið,...
Published 12/23/23
Published 12/23/23
Gunnlaugur og Ármann ræða hina gömlu lummu um sannleiksgildi Íslendingasagna og fornrita yfirleitt sem almenningur (einkum eldra fólk) hefur mikinn áhuga á. Talið berst einnig að Landnámu og landamerkjadeilum, Kristínu Geirsdóttur og trú aldamótakynslóðarinnar á að Íslendingasögur séu sannar, yfirheyrslum lögreglu sem skemmtiefni, óvinsældum Sveinbjarnar Rafnssonar, fegurð sannleikans, hvort Kristur frelsaði mannkynið með fórnardauða sínum, morðinu á Kitty Genovese, hinni hundrað ára gömlu...
Published 11/20/23
Gunnlaugur og Ármann ræða Fóstbræðrasögu og þá glannalegu hugmynd Ármanns að Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld séu dæmi um tvífaraminnið sem síðar komst í tísku og tákngervingar tvöfeldninnar í mannssálinni. Þetta tengist umræðunni um raunsæi, tilfinningalega dýpt, sögusamúð, táknsæi og hugmyndaheimi vísindabyltingarinnar. Þeir ræða líka Gerplu og hugmyndir Helgu Kress um að Fóstbræðra saga sé paródía. Talið berst einnig að stöðu skáldsins í menningunni, ungum vandræðagemsum,...
Published 11/06/23
Gunnlaugur og Ármann ræða bókmenntagrein sem varðveittist í öðrum textum, dróttkvæði í Íslendingasögum og konungasögum. En eru þau eftir skáldin sem þau eru kennd? Hvort eru flokkar eða drápur betri? Var Gísli súrrealisti? Hvers vegna er engin vísa eftir Sviðu-Njál í sögu hans? Hverjir fara helst í hungurverkfall og hver var sælkeri mikill og matvandur mjög? Talið berst líka að þriggja manna hjónaböndum, Lata-Geir á Lækjarbakka, Tolkien og Gvendi bónda á Svínafelli, Elton John og Þormóði...
Published 10/23/23
Gunnlaugur og Ármann fá Vigdísi Hafliðadóttur sem eitt sinn var fyndnasti háskólaneminn í heimsókn og þau ræða orðskviði og almennan fróðleik í Grettis sögu og Hávamálum. Vigdís reynir að stela titlinum „rödd almennings“ frá Gunnlaugi þó að hún sé með BA-próf í heimspeki og síðan ræða þau þriggjadísabækling, Mjallhvíti og Lenín, kviksetningu, bitlinga Hallgerðar, kómíska talgalla, sundvenjur og hvaða Davíð keypti ölið. En er hægt að treysta einlægni? Er fólki um þrítugt óhætt að sækja...
Published 10/09/23
Hlustendur völdu Ölkofra sögu sem umföllunarefni 45. þáttar og Ármann og Gunnlaugur ræða hann en um leið 119. og 120. kafla Njáls sögu þegar Skarphéðinn auðmýkir alla helstu höfðingja Íslands með orðkynngi sinni. Talið berst líka að Jane Austen og Charlotte Brontë, tákngildi mjólkur sem lekur um „litlaskarð“ karlmanna, mansöngsdrápum lögsögumanns sem stundum kallaði sig Burstakoll, mökum skordýra, Gardemoen-flugvellinum og Gunnlaugur segir óborganlegan brandara um SS- og Goðapylsur. En er...
Published 09/25/23
Gunnlaugur og Ármann ræða hina lítt þekktu Bárðar sögu Snæfellsáss sem hefur öll helstu einkenni sagnfræðirita en er misskilin í nútímanum vegna fjölda annarsheimsvætta og vegna þess að nútímafræðimenn meta stundum miðaldarit vegna þess hversu vel þau falla að heimsmynd nútímans. Eins kemur fram að Bárðarsöguhöfundur einn skilur muninn á risa og trölli. Þá er rætt um náttúrunafnakenninguna, vinsældir hlaðvarpsins í heiminum, hinn ástsæla Kim Il Sung, söngvarann Erling Ágústsson, ferð Ármanns...
Published 09/11/23
Fyrir áskrifendur okkar á Patreon les Gunnlaugur upp vel valdar Íslendingasögur og þætti. Hérna birtist brot úr fyrstu sögunni, Króka-Refs sögu, en þar sem hér er komið sögunni segir frá því hvernig Refur fór með óvini sína þá Gunnar og Bárð. Ef þú vilt hlusta á söguna í heild sinni þá geturðu gerst áskrifandi að Patreon síðunni okkar: https://bit.ly/44EZknZ
Published 09/05/23
Gunnlaugur og Ármann ræða Snorra Sturluson sagnaritara og bróðurson hans Sturlu Þórðarson en Sturla er helsta heimildin um víg Snorra í september 1241 og segir ólíkt frá því í Hákonar sögu og Íslendinga sögu í Sturlungusafninu. Talið berst einnig að hlýjum mánuðum, orðheldni jarla, Ólafi krónprins, ríkum ekkjum, mildi aldraðs fólks, ráðstefnudólgum og merkingu orðanna út og utan. En hver voru hinstu orð Snorra Sturlusonar? Hvað stóð í bréfum Hákonar konungs? Hvað voru Gissur Þorvaldsson og...
Published 08/28/23
Í þessum þætti berst talið að fornaldarsögum Norðurlanda og einkum Hrólfs sögu kraka en líka að skrítnum smekk 15. aldar manna, sifjaspellum í fornsögum, Indiana Jones, Prins Valíant og Andrew prins. Gunnlaugur og Ármann ræða Rafn ofursta og Skuld drottningu, andsetna gelti og þýskar prinsessur sem eru eins og mý á mykjuskán, þættar sögur, hinn heilaga gral, fégræðgi Svía, galdra og hamskipti, valdabaráttu Dana og Svía á 17. öld, stigveldi fornsagna og sælustundir í Nýja-Garði. En er Svíþjóð...
Published 08/14/23
Loki kemur við sögu í Snorra-Eddu og eddukvæðum. Hann er guð og ekki guð, karl og kona, jötunn en þó ekki, stundum í hryssulíki og getur breytt sér í flugu og lax. Margt á Loki sameiginlegt með Óðni – en var hann heimsendaguð eða kannski skólafélagi Gunnlaugs? Og í hvaða höfuðátt búa jötnarnir? Eru Loki og Útgarða-Loki sama veran? Skrópaði tröllkonan Þökk í lýðveldiskosningunum 1944? Er letin kannski mjög jákvæð? Um hvað eru íslenskar bókmenntir fyrri alda heimildir, er sögnin „hrauna“...
Published 07/31/23
Gunnlaugur og Ármann ræða eddukvæðið Vafþrúðnismál, visku og háan aldur jötna, hvernig guðirnir svindla alltaf, fjölþætta merkingu ergihugtaksins á miðöldum, merkingarkjarna og merkingarauka en víkja einnig að hómóerótískum málverkum af Kain og Abel, fornu íslensku sjónvarpsefni, spennumyndinni Red Eye og bandarísku stafsetningarkeppninni. En myndi Ármann ekki fara með sigur í samsvarandi íslenskri stakyrðakeppni? Mun Gunnlaugur stofna sérstakt hlaðvarp um hollenska menningu? Hvers konar...
Published 07/17/23
Íslenzk fornrit eru virðulegasta útgáfa fornsagna og hafa komið út í rúm 90 ár. Í þessum þætti ræða Gunnlaugur og Ármann þennan þjóðrækna bókaflokk sem þátt í viðleitni sinn til að endurvekja bókablæti á Íslandi. Á dularfullan hátt leiðir þetta þá í að ræða söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Einnig berst talið að tilraunum Ármanns til að búa til nýja Íslendingasögu og því hvernig Gunnlaugur varð poppakademíker. En hvað eru Íslenzk fornrit og getur talist heilbrigt fyrir tvítug ungmenni...
Published 07/03/23
Gunnlaugur og Ármann ræða Gunnlaugs sögu en óminnishegrinn sveimar yfir þeim þannig að úr verður kátlegt minnisleysingjaleikrit. Meðal annars berst talið að fjárfestingarstefnu Gunnlaugs ormstungu, óhefðbundnum lækningaraðferðum hans, Gunløgsgade í Kaupmannahöfn, hvort Gunnlaugur og Hrafn hafi verið rapparar síns tíma eða hvort óskynsamlegt sé að færa særðum andstæðingi vatn. En afsannaði Jón Sigurðsson fornsögurnar? Er verra að þola ekki Þorstein Egilsson en vera búinn að steingleyma...
Published 06/29/23
Gunnlaugur og Ármann ræða helstu fanta og fúlmenni fornsagnanna, m.a. í ljósi skrifa Einars Ólafs Sveinssonar, Åsfrid Svensen og Carol Clover. Í ljós kemur að Gunnlaugur hefur steingleymt miðjunni á Njálu og feluleikjasnilld Þráins Sigfússonar. Einnig ræða þeir sjónarhorn í frásögnum, vísu Þóris jökuls, hnyttin tilsvör unglingsdrengja, íslenskan Sherlock Holmes á 10. öld, f-orðið, norsku gamansemina, Richard Nixon, „miles gloriosus“ manngerðina, Bíólagið og hvort illmennin hafi verið...
Published 06/19/23
Gunnlaugur og Ármann ræða kvikmyndaaðlaganir norræns miðaldaarfs út frá eigin brigðula minni. Til umræðu eru ást Ármanns á Three Billboards Outside Ebbing, Missouri, Njáluaðlögun Gunnlaugs með eiturlyfjasöluþema, endasleppur söngvakeppnisframi hans og „unheimlich“ atvik í Danmörku. Einnig Hávamálasiðferðið, áhugaleysi fornmanna á Norðurljósum, gagnrýnin hugsun, táknfræðilegur tilgangur brossins, latar vinnukonur og „willing suspension of disbelief“. Glímt er við spurningar á borð við: Hvernig...
Published 12/23/22
Séra Sveinn Valgeirsson kemur í heimsókn í sérstökum jólaþætti þar sem rætt er um muninn á prestsstörfum í borg og landsbyggð, kraftaverk miðalda og jarteinasögur, íslenska dýrlinga, sérgreiðslur til presta, hversu illa Svíar voru liðnir á miðöldum, áhuga Gunnlaugs á Hallmark-bíómyndum og muninn á Lúter og Luther. Einnig um jólasiði í ýmsum löndum, gjafir vitringanna, presta í fjölskyldu Ármanns, setningagerð í guðspjöllunum, útvarpsmessuna á jólunum, Sinterklaas og fylgdarmenn hans,...
Published 12/20/21
Guðni Jónsson gaf út 42 fornsögur nánast á ljóshraða á 5. og 6. áratugnum og á undan honum gerði Sigurður Kristjánsson bóksali Íslendingasögur að þjóðareign. En hversu mikilvægar eru þær í þjóðarsálinni, hve lengi hafa þær verið vinsælar og hver er þáttur bóksala í Bankastræti í vinsældum þeirra? Er Ármann nógu háfleygur til að hafa samið heiti þáttarins upp úr sér? Hvað varð um Torfa sögu Valbrandssonar? Var aðdáendaspuni til á 19. öld? Hvað varð um Sverris sögu sem Ármann samdi níu ára?...
Published 11/29/21
Hvaða dreka nennti J.R.R. Tolkien að telja með sem alvöru norræna dreka? Og hver eru tengsl drekans við pabba þinn? Hversu gaman er að hefja ævistarfið eftir 73 ára aldur? Eru unglingar aðeins hættulegir í hóp? Voru loðbrækur CGI síns tíma?  Gunnlaugur og Ármann ræða mælsku og kurteisi dreka, fólk sem talar við gæludýrin sín og Júragarðinn í ljósi kenninga Sigmund Freud um „das unheimliche“ í þessum æsispennandi þætti sem lýkur á að Gunnlaugur segir: „Þá er betra að vera hobbiti“.
Published 11/22/21
Ármann og Gunnlaugur glíma við hugmyndina um „unglegar Íslendingasögur“ og ræða tæknibrellur í Króka-Refs sögu. Getur verið að Hrafnkell Freysgoði hafi líka haft 15. aldar klippingu og hver var Remo Giazotto og hvernig tengist hann Íslendingasögunum? Eru „trúverðugt“ og „sagnfræðilegt“ samheiti? Hefði sonur Gunnlaugs átt að heita Refur? Hvers vegna töldu menn smekk Íslendinga hafa hnignað á 14. öld og hvers vegna eru áheyrendur ekki þegar búnir að lesa allt Kulturhistorisk leksikon?  
Published 11/15/21
Hver fann upp ostaskerann? Eru menn enn óljúgfróðir eða er nútíminn ekkert nema falsfréttir? Var Ingólfur Arnarson fyrsti landnámsmaðurinn? Voru landnámsmenn umhverfisböðlar? Var fræðimennska fyrri tíma stundum eins og skyggnilýsingar? Hefði höfundur Egilssögu nefnt son sinn Órækja þegar systir hans notaði nafnið Egill? Voru konur Íslendingasagnakennarar? Mun Gunnlaugur verða þekktur í sögunni sem Gunnlaugur fróði? Alveg rugluð? Þið verðið það ekki eftir þennan þátt af Flimtani og fáryrðum!
Published 11/08/21
Gunnlaugur og Ármann ræða áhugaleysi fræðimanna á austmönnum í sögunum sem hefur snúist við seinustu áratugi. Margt fleira bera á góma, m.a. skrárnar í útgáfum Guðna Jónssonar, dönsku og bresku kvennablöðin, heimildagildi Íslendingasagna, hvernig sé að vera tvíburi, Velvakandi, innflytjendauppruni Ármanns, verð á skírnarathöfnum fyrir hlaðvarpsstjórnendur og Ármann nær að koma að tilvitnun í þýska heimspekinginn Georg Simmel.  
Published 11/01/21
Framdi Þór fyrsta hatursglæpinn? Voru Íslendingar hræddir við dverga? Hvers vegna gleymir Ármann stöðugt nafninu Alvís? Hverjir breytast í steina? Er Möndull erótískt nafn? Hvers vegna man fólk um fimmtugt aðeins dönsk nöfn dverganna sjö? Ármann og Gunnlaugur ræða dverga í eddukvæðum og Snorra-Eddu, þróun þeirra til nútímans og atvinnumöguleika dvergaleikara á öld tölvutækninnar. 
Published 10/25/21
Á að bera fram d í nafninu Halli? Er Ármann hörgabrjótur? Hversu lengi þurfa menn að burðast með syndir fortíðarinnar og hversu fákænn þarf maður að vera til að hengja sjálfan sig? Gunnlaugur og Ármann fjalla um einn af áhugaverðustu Íslendingaþáttunum í Morkinskinnu sem Gunnlaugi finnst þó ekki fyndinn (fyrr en Ármann hermir eftir Maggie Smith).  
Published 10/18/21